Lög Góðvina Grunnavíkur-Jóns

Lög Góðvina Grunnavíkur-Jóns

1. gr.

Félagið heitir Góðvinir Grunnavíkur-Jóns. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Félagið er stofnað til að standa vörð um fræðimannsheiður Jóns Ólafssonar úr Grunnavík. Markmiði sínu hyggst félagið ná meðal annars með því að:

            a)         kynna Jón, ævi hans og störf

            á)         gefa út verk Jóns eftir því sem aðstæður leyfa

3. gr.

Góðvinir eru stofnendur.

            Góðvinir geta mælt með nýjum góðvinum við góðvinafund eða meginfund til samþykktar eða synjunar. Skal nýr góðvinur hafa sýnt minningu Jóns Ólafssonar úr Grunnavík virðingu og fræðastarfi hans áhuga. Sæki maður um inngöngu í félagið án þess að nokkur góðvinur mæli með honum skal höfuðgikkur gerast rannsaksmaður og athuga hvort um er að ræða falsprófeta eða ekki áður en hann ber umsóknina undir góðvina- eða meginfund til samþykktar eða synjunar. Letrastýrir skal tilkynna nýjum góðvini ákvörðunina bréflega.

            Góðvinir undir 74 ára aldri mega aldrei vera fleiri en 21. Góðvinur sem náð hefur 74 ára aldri eða á við langvarandi veikindi eða alvarlega fötlun að stríða er undanþeginn öllum skyldum við félagið en er í sjálfsvald sett hvort hann tekur á sig skyldur eða verk fyrir félagið. Góðvinur sem telur þetta ákvæði eiga við sig og vill njóta þess skal tilkynna höfuðgikk um ákvörðun sína.

            Góðvinir geta mælt með við góðvina- eða meginfund til samþykktar eða synjunar að menn, sem búsettir eru utan varnarþings eða Kjalarnessþings, verði innlimaðir sem útlimir félagsins. Skal nýr útlimur hafa sýnt minningu Jóns Ólafssonar úr Grunnavík virðingu og fræðastarfi hans áhuga. Letrastýrir skal tilkynna nýjum útlim ákvörðunina bréflega. Flytji útlimur í Kjalarnessþing fellur hann úr tölu útlima. Óski hann eftir að gerast góðvinur verður hann að sækja um inngöngu í félagið. Ef enginn góðvinur mælir með honum má höfuðgikkur bera umsóknina undir góðvina- eða meginfund til samþykktar eða synjunar án þess að gerast rannsaksmaður.

            Sé manni synjað inngöngu í félagið sem góðvini skal letrastýrir taka að sér hlutverk synjara og tilkynna honum um synjunina.

            Meginfundur getur kosið hróðmög sem hefur haldið minningu Jóns Ólafssonar úr Grunnavík hátt á lofti. Skal höfuðgikkur tilkynna hróðmegi þessa ákvörðun bréflega. Hróðmegir verði aldrei fleiri en þrír hverju sinni. Hróðmögur nýtur allra forréttinda góðvina en er undanþeginn öllum skyldum við félagið. Honum er í sjálfsvald sett hvort hann tekur á sig skyldur eða verk fyrir félagið.

            Meginfundur getur ákveðið að heiðra kúnstasmiði sem halda eða hafa haldið minningu Jóns Ólafssonar úr Grunnavík á lofti. Skal höfuðgikkur færa kúnstasmið heiðursskjal þessu til sönnunar.

4. gr.

Meginfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.

            Meginfund skal halda 21. október ár hvert og skal það kvisast út (sbr. 7. gr.) með minnst þriggja daga fyrirvara og er hann þá lögmætur. Góðvini, hróðmegi og útlimi, sem staddir eru í Kjalarnesþingi á fundartíma, skal boða á meginfund.

            Á meginfundi ræður afl atkvæða í öllum málum.

            Dagskrá meginfundar er:

                        1.         Höfuðgikkur velur fóvita og rissara (sbr. 10. gr.).

                        2.         Buldrað riss síðasta meginfundar (sbr. 11. gr.).

                        3.         Sprokmeistari les úr verkum Jóns Ólafssonar (sbr. 9. gr.).

                        4.         Fluttur annáll ársins (sbr. 7. gr.).

5.         Kvisberi fer með förumanna-, heimasætna-, heigulbassa-, landhlaupara- og útilegumannatal ársins.

                        6.         Yfirtilsénir reikningar félagsins lagðir fram (sbr. 7. gr.).

                        7.         Lagabreytingar (ef einhverjar eru, sbr. 12. gr.).

                        8.         Ákvörðun góðvinagjalds (ef þörf krefur, sbr. 6. gr.).

                        9.         Kosin gulltunga ársins (sbr. 9. gr.).

                        10.       Kosning stjórnar og annarra embættismanna (sbr. 7. og 8. gr.).

                        11.       Önnur mál.

                        12.       Kosning sprokmeistara næsta góðvinafundar (sbr. 9. gr.).

                        13.       Tilnefning stampableytirs næsta góðvinafundar (sbr. 10. gr.).

14.       Kvisberi fer með förumanna-, heimasætna-, heigulbassa-, landhlaupara- og útilegumannatal (ef þörf krefur, sbr. 7. og 10. gr.).

5. gr.

Reikningsár félagsins er frá 1. október til 30. september.

6. gr.

Góðvinagjald skal ákveðið á meginfundi. Stjórn gerir tillögu fyrir hvern meginfund hvort það skuli lagt á og hversu hátt og skal sú tillaga birt góðvinum í fundarboði.

            Hróðmegir og útlimir eru undanþegnir góðvinagjaldi.

7. gr.

Stjórn skal kosin á meginfundi. Hana skipa höfuðgikkur, gikkur, letrastýrir, féþrjótur og kvisberi og skal kosið í hvert embætti fyrir sig.

            Höfuðgikkur stýrir félaginu, boðar stjórnarfundi og stýrir þeim, setur góðvina- og meginfundi, flytur annál ársins á meginfundi og er talsmaður félagsins út á við. Hann varðveitir eigur félagsins aðrar en þær sem taldar eru upp í þessari grein og næstu.

            Gikkur er staðgengill höfuðgikks.

            Letrastýrir ritar fundargerð stjórnar og sér um að rissarar sinni starfi sínu. Letrastýrir er jafnframt skjalari, þ.e. hann varðveitir skjalagögn félagsins.

            Féþrjótur sér um sjóð félagsins, gerir reikningsskil fyrir hvern meginfund og leggur fram yfirtilséna reikninga.

            Kvisberi situr í stjórn sem meðstjórnandi, boðar góðvina- og meginfundi samkvæmt ákvörðun stjórnar eða lögum félagsins (sbr. 4. og 10. gr.). Kvisberi tekur við tilkynningum góðvina um forföll á góðvina- eða meginfundi, fylgist með því hvaða góðvinir eru staddir fjarri fundarstað á fundartíma og hefur auga með því hvort góðvinir fari í ótíma af góðvina- eða meginfundi.

            Við úrvinnslu vandasamra verka getur stjórn leitað liðsinnis góðvina, svo sem orðspekinga og korrektora, en einnig fjárplóga og bókahandlara. Fjárplógur tekur við ritum til útgáfu af bókarsmiðum og korrektorum, semur um útgáfu þeirra við bókþrykkjara og ræður örgáta. Bókahandlari sér um að auglýsa og selja rit félagsins, en einnig að fá bókadómara til að dæma útgefin rit. Skulu bókahandlari og fjárplógur standa féþrjót reikningsskil gerða sinna í fjármálum.

8. gr.

Aðrir embættismenn eru yfirtilsjáandi, lagagellir, hólagöngumaður og voðamaður og eru þeir kosnir á meginfundi.

            Yfirtilsjáandi fer yfir reikninga félagsins fyrir meginfund þegar féþrjótur hefur gert reikningsskil og fylgist alla jafna með því að féþrjótur og/eða stjórn fari ekki offari í fjármálum.

            Lagagellir skýrir lög félagsins ef ágreiningur rís.

            Hólagöngumaður skipuleggur átthagaferðir og aðrar ferðir eftir þörfum.

Voðamaður sér um vefsíðu góðvina (grunnvíkingur.is).

Skulu hólagöngumaður og voðamaður standa féþrjót reikningsskil gerða sinna í fjármálum.

9. gr.

Á hverjum góðvina- og meginfundi skal sprokmeistari lesa úr verkum Jóns Ólafs-sonar og sprokmeistari næsta fundar kosinn.

            Fyrir hvern meginfund gerir stjórn tillögu um hver sprokmeistara starfsársins skuli hljóta sæmdarheitið gulltunga ársins. Skal höfuðgikkur færa gulltungu skjal í viðurkenningarskyni.

10. gr.

Stampableytir er sá góðvinur sem heldur góðvina- eða meginfund. Á hverjum fundi skal koma fram tillaga um næsta stampableytir.

            Í upphafi hvers góðvina- eða meginfundar skal kosinn fóviti og rissari. Fóviti stýrir fundi en rissari ritar fundargerð og verður buldrari á næsta fundi.

            Í lok hvers góðvina- og meginfundar skal kvisberi fara með förumanna-, heimasætna-, heigulbassa-, landhlaupara- og útilegumannatal.

            Ef góðvinur kemst ekki á fund skal hann láta kvisbera vita að minnsta kosti þremur klukkustundum fyrir fund.

            Förumaður er sá góðvinur sem yfirgefur góðvina- eða meginfund áður en sprokmeist-ari hefur lokið máli sínu.

            Heimasæta er sá góðvinur sem mætir ekki til fundar en boðar lögmæt forföll.

            Heigulbassi er sá góðvinur sem mætir ekki til fundar og boðar ekki lögmæt forföll.

            Landhlaupari er sá góðvinur sem dvelst í fjarska, tilamunda erlendis eða í byggð innanlands.

            Útilegumaður er sá góðvinur sem er í óbyggðum á fundartíma.

11. gr.

Góðvinafundir skulu haldnir svo oft sem þurfa þykir en þó eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári.

            Kvisberi lætur kvisast út um góðvinafund með minnst fjegra dægra fyrirvara samkvæmt ákvörðun stjórnar. Góðvini, hróðmegi og útlimi, sem staddir eru í Kjalarnesþingi á fundartíma, skal boða á fund. Góðvinafundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Að lokinni kosningu fóvita og rissara í upphafi hvers góðvinafundar skal buldrari buldra riss síðasta góðvinafundar.

12. gr.

Lögum þessum verður aðeins breytt á meginfundi. Tillögur um breytingar skulu berast höfuðgikk minnst sjö dögum fyrir meginfund.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Hvassaleiti 115, Reykjavík, 26. október 2021