Ævi Grunnavíkur-Jóns
Jón Ólafsson – fáein æviatriði
Jón Ólafsson var fæddur á Stað í Grunnavík í Jökulfjörðum 15. ágúst 1705, sonur prestshjónanna þar, Ólafs Jónssonar og Þórunnar Pálsdóttur. Jón missti föður sinn í stóru bólu 1707 og ólst upp í Húnaþingi frá sjö ára aldri. Á sumrin var hann með móður sinni á Vatnssnesi en á vetrum í Víðidalstungu hjá Páli Vídalín lögmanni og konu hans Þorbjörgu Magnúsdóttur frá Vigur. Jón brautskráðist stúdent frá Hólaskóla 1722 og þjónaði síðan Páli Vídalín lögmanni sem skrifari. Jón sigldi til Kaupmannahafnar haustið 1726 til þess að gerast skrifari Árna Magnússonar prófessors og var í þjónustu Árna þrjú síðustu æviár hans. Jón tók guðfræðipróf frá Hafnarháskóla 1731. Hann varð fyrsti styrkþegi Árnasjóðs og vann mestan hluta ævinnar við fræðistörf í Árnasafni í Kaupmannahöfn. Hann dvaldi á Íslandi 1743–51, eignaðist þar einkadóttur sína Ragnhildi með Guðrúnu Bjarnadóttur þjónustustúlku á Þingeyrum. Jón var einhleypur alla ævi, heilsutæpur síðustu árin. Hann lést í Kaupmannahöfn 17. júní 1779.
Fræðastörf Jóns voru af ýmsum toga, en hans helsta verk er uppkast að íslensk – latneskri orðabók sem varðveitt er í mörgum stórum bindum í eiginhandarriti hans á Árnastofnun, en hefur ekki komið út. Jón samdi skrá yfir handritasafn Árna Magnússonar, lagði drög að íslenskri bókmenntasögu, samdi ævisögur helstu íslenskra merkismanna á samtíð sinni, skrifaði um málfræði, skáldskaparfræði, náttúrufræði, rúnafræði, orðskýringafræði, hann samdi skýrslu um brunann í Kaupmannahöfn 1728, skýrði fornan kveðskap og eftir hann liggur fjöldi uppskrifta eftir fornum ritum. Hann átti bréfaskipti við fjölda fólks á Íslandi, skyldmenni sín og kunningja, og á Árnastofnun eru varðveittar dyngjur af bréfauppköstum hans og fréttasafni sem hann sendi efni úr á seðlum með bréfum sínum á vorskipum til Íslands.
Helstu heimildir um ævi og störf Jóns Ólafssonar úr Grunnavík:
Jón Helgason. Jón Ólafsson frá Grunnavík. (Safn Fræðafjelagsins V.) Kh. 1926.
Jón Ólafsson úr Grunnavík. Ævisögur ypparlegra merkismanna. Guðrún Ása Grímsdóttir annaðist útgáfu. Rv. 2013.
Úrval bréfaskrifta Jóns Ólafssonar úr Grunnavík frá Kaupmannahöfn til Íslands 1728–1738. Guðrún Ása Grímsdóttir bjó til prentunar. „Vitjun sína vakta ber.“ Safn greina eftir Jón Ólafsson úr Grunnavík. Ritstj. Guðrún Ingólfsdóttir, Svavar Sigmundsson. Rv. 1999, bls. 103–142.
Guðrún Ása Grímsdóttir. Lærður Íslendingur á Turni. Af Jóni Ólafssyni Grunnvíkingi. Gripla XII. Rv. 2001, bls. 125–147.